. - Hausmynd

.

Veturinn búinn hjá sunddeildinni

Í vetur eru búnar að vera æfingar tvisvar í viku og iðkendur 30 talsins á aldrinum 8-16 ára, þetta eru heldur færri en voru fyrir áramót en þá voru 7 ára líka en í janúar var ákveðið að Sindri biði uppá íþróttaskóla fyrir þann aldur þar sem boðið var uppá fjölbreyttar íþróttir.

Við fórum í dósasöfnun í febrúar og þökkum kærlega fyrir þær góðu móttökur sem íbúar hafa sýnt okkur. Fyrir peningana voru keyptar skeiðklukkur og uggar. Þá voru einnig pantaðar keppnispeysur en þau kaup voru einnig styrkt af nokkrum fyrirtækjum sem við viljum þakka kærlega fyrir velvildina.

Í apríl héldum við svo páskaeggjamót innan deildarinnar, allir fengu páskaegg og átti önninni að ljúka þar með. En okkur var boðið að taka þátt í árlegu vormóti á Djúpavogi þremur dögum seinna og auðvitað létum við okkur ekki vanta þar. Krakkarnir okkar stóðu sig öll með mikilli prýði og hringlaði í verðlaunapeningum á heimleiðinni.

Eftir páska hófst svo vor/sumarönnin og drifum við okkur beint í æfingabúðir og á mót á Neskaupsstað fyrstu helgina í maí, enda nýju peysurnar komnar uppúr kassanum og ekki eftir neinu að bíða. Föstudagur fór í æfingar, en einnig var boðið uppá dómaranámskeið þar sem yfirdómari frá Sundsambandi Íslands, Ólafur Baldursson, kenndi. Tveir dómaranemar fóru frá Sindra það voru Þuríður Snorradóttir og Ásdís Pálsdóttir. Gist var í Nesskóla þar sem fór vel um okkur. Mótið sjálft var á laugardegi þar sem dómaranemarnir þreyttu verklega hluta námskeiðsins. Krakkarnir stóður sig frábærlega vel. Sunddeild Sindra varð í 1.sæti í boðsundi 12 ára og yngri eftir svakalega baráttu og ætlaði allt að verða vitlaust í lauginni. Til sunddeildar Sindra komu einnig 6 gull, 4 silfur og 2 brons. 10 ára og yngri fengu öll þátttökupening. Við eigum fullt af efnilegu sundfólki í Sunddeild Sindra þau stóðu sig frábærlega.

Í maí fóru krakkarnir aftur af stað í dósasöfnun og nú söfnum við fyrir korkum og öðrum æfingartækjum til að bæta sundtæknina enn frekar. Stefnt er á að fara svo á Hallormsstað um næstu helgi, en þar verður hátíð haldin og keppt í sprettsundum, hlaupi og farið í leiki og haft gaman. Í júní verður æfingum fjölgað í 3var í viku og verður þá útskrifuðum 2. bekkingum boðið að koma aftur inn. Helgina 18-19.júní munum við svo bjóða öðrum sunddeildum að koma til okkar í æfingabúðir. Við verðum ekki með æfingar í júlí og ágúst en hvertjum allt sundfólk til að mæta í laugina og sunda sér til skemmtunar og heilsubóta, sérstaklega vonumst við til að krakkarnir verði dugleg að synda og fjölmenni svo á unglingalandsmót um verslunnarmannahelgina og sýni hvað í þeim býr.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband